154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:56]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hluti af framkvæmd lýðræðisins að standa reikningsskil gjörða sinna fyrir kjósendum. Við erum síðan með okkar eigin aðferðir, flokkarnir, til þess að eiga samtal við þá sem vilja styðja þá hugmyndafræði sem við stöndum fyrir. Í því máli sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni hér, áliti umboðsmanns Alþingis, þá hef ég sagt allt sem ég þarf að segja um það mál. Ég lét þau orð fylgja á þeim tíma að völdum fylgdi ábyrgð. Við skulum aðeins hafa í huga að einn þingmaður er alltaf bara eitt atkvæði hér í þessum sal. Það er enginn þingmaður með þyngra atkvæði heldur en annar, enginn. Það nær enginn meiri hluta hér í þessum sal bara á forsendum þess að sitja á ráðherrabekknum umfram annan þingmann. Það virkar ekki þannig. Í dag búum við, og höfum gert undanfarnar kosningar, við þær aðstæður að átta flokkar eru með þingmenn á Alþingi. Það kallar á fjölflokkastjórnir, ítrekað, þriggja flokka stjórnir að lágmarki, sem gerir kröfu um málamiðlanir milli ólíkra sjónarmiða og mörgum finnst vera bara töluvert mikil fegurð í því. Í bandaríska þinginu eru oft mikil átök og erfitt að leiða ágreining til lykta og sumir halda því fram að það sé á grundvelli þess að stjórnarskráin í Bandaríkjunum hafi verið frá upphafi haldin ákveðnum göllum sem ekki hafi séð þetta fyrir. En þeir eru til sem bent hafa á að það hafi akkúrat verið smíðað inn í stjórnarskrána að enginn gæti drottnað yfir öðrum yfir lengri tíma og það þyrfti málamiðlanir á milli þeirra sem fjalla um frumvörp í því landi. Hér í þessum sal er hins vegar gert lítið úr því þegar þingflokkarnir reyna að framkvæma lýðræðið í samræmi við reglurnar. Hv. þingmaður gerir lítið úr því (Forseti hringir.) að það taki nokkrar vikur að setja saman ríkisstjórn sem á að standa í fjögur ár og hefur nú lifað í bráðum sjö. Ég er þessu algerlega ósammála. Við erum bara rísa undir okkar hlutverki, (Forseti hringir.) framkvæma lýðræðið í samræmi við reglurnar og við höfum skilað góðum árangri.